Mörg bakarí á Íslandi auglýsa orðið Konditor í bæklingum eða firmamerkjum þrátt fyrir að enginn Konditor sé starfandi hjá fyrirtækjunum og vekur það upp þá spurningu hvort þetta sé leyfilegt?
Konditor er iðngrein sem löggilt var á Íslandi með útgáfu fyrstu iðnaðarlaganna árið 1927 og kallast á Íslandi „kökugerð“. Nafnið konditor er notað um gjörvalla skandinavíu og hinn þýskumælandi heim. Þegar Konditorsamband Íslands var stofnað 1. mars 2012. var megin markmið og tilgangur félagsins að safna saman í ein samtök öllum konditorum og fyrirtækjum sem standa að rekstri konditori (kökugerða), auka menntun, verkkunnáttu, virðingu og vöruvöndun í greininni. Jafnframt að undirstrika og berjast fyrir sérstöðu hennar sem sjálfstæðrar iðngreinar. Konditorfagið er mjög skylt bakaraiðn og þróaðist út frá henni. Samkvæmt reglugerð um löggiltar iðngreinar 940/1999 eru matvælagreinarnar á Íslandi 6 talsins og er kökugerð ein af þeim,
sagði Sigurður Már Guðjónsson bakara- og konditormeistari og formaður K.Í. í samtali við freisting.is aðspurður um bakarí á Íslandi auglýsa sig sem konditori.
Sigurður bætir við:
Af lögunum að dæma geta þeir einir er lokið hafa námi sem konditorar rekið konditori. Það að kalla bakarí „bakery“ á ensku veitir ekki ófaglærðum leyfi til iðnreksturs. Ástæða þess að flestir kalla sig konditora en ekki kökugerðarmenn, er sú að ráðuneytið hefur ekki gefið út kökugerðarsveinsbréf. Ráðuneytið hefur sagt að vegna EES samningsins gildi hin dönsku og þýsku sveinsbréf á Íslandi. Aftur á móti þegar konditorar sækja um meistarabréf hjá Sýslumönnum fá þeir útgefið bréf sem á stendur „Hlýtur hér með nafnbótina meistari í kökugerð.
Er Konditorsamband Íslands að beita sér gegn þessari þróun?
Konditorsambandið hefur ekki á nokkurn hátt beitt sér gegn einum né neinum, ennþá. Að sjálfsögðu eiga menn ekki að vera að nota starfsheiti, sem þeir hafa ekki menntun í, enda óheimilt samkvæmt lögum,
sagði Sigurður að lokum.
Greint frá á freisting.is