Lög félagsins

LÖG KONDITORSAMBANDS ÍSLANDS

Nafn og aðsetur

1. gr.

Sambandið heitir Konditorsamband Íslands, sem skammstafað er K.Í.

2.gr.

Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík

Markmið og tilgangur

3. gr.

Markmið og tilgangur K.Í. er:

a) Að safna saman í ein samtök öllum konditorum og fyrirtækjum sem standa að rekstri konditori(kökugerða), enda hafi þessi fyrirtæki í þjónustu sinni konditora(kökugerðarmenn).

b) Að gæta hagsmuna sambandsaðila gagnvart opinberum aðilum og öðrum þeim sem sambandsaðilar skipta við. K.Í. skal koma fram sem sameiginlegur aðili út á við fyrir aðila að sambandinu að því er varðar hagsmunamál þeirra.

c) Að vinna að aukinni menntun, verkkunnáttu, virðingu og vöruvöndun í greininni, svo og að standa fyrir kynningu og fræðslu á þeim sviðum er kökugerð varðar.

d) Að verja kökugerðina og berjast fyrir sérstöðu hennar sem sjálfstæðar iðngreinar.

e) Að tryggja að aðbúnaður og kennsla þeirra nema sem eru á konditor-námssamning á Íslandi, sé með hinu allra besta móti.

f) Að halda fundi og ræða fagleg áhugamál.

g) Að reka keppnis og sýningalið í samstarfi við B.M.F.R..

Aðild að sambandinu

4. gr.

Rétt til aðildar að K.Í. sem fullgildir meðlimir hafa allir konditorar og fyrirtæki sem standa fyrir rekstri kökugerða, enda hafi þessi fyrirtæki í þjónustu sinni konditora. Aukafélagar geta þeir orðið sem verið hafa fullgildir aðilar en hættir eru störfum í greininni. Þeir félagar sem náð hafa löglegum eftirlauna aldri geta orðið heiðursfélagar og greiða ekki félagsgjöld.

5. gr.

Umsókn um inngöngu í K.Í. skal vera skrifleg og sendast til stjórnar. Skulu umsókninni fylgja öll nauðsynleg gögn sem sýni að umsækjandi uppfylli öll skilyrði um inngöngu. Framvísa skal afriti af sveinsbréfi sem konditor eða meistarabréfi í kökugerð. Félagið mun geyma afrit í skjalasafni sínu. Engar undantekningar eru frá þessari reglu. Stjórnin skal kjósa um innsækjendur, og skal einfaldur meirihluti ráða. Umsækjandi telst hafa hlotið inngöngu í K.Í. þegar stjórnin hefur samþykkt inntökubeiðni hans. Geta stjórnarmenn óskað eftir leynilegri kosningu. Hafni stjórnarmaður einhverjum innsækjanda, skal hann skýra frá og rökstyðja ástæðu þess.Komist stjórnin ekki að niðurstöðu um hvort taka beri umsókn til greina, skal skjóta ákvörðun til næsta aðalfundar. Hljóti konditor inngöngu í félagið skal honum veitt skrautritað og innrammað skjal frá félaginu þess efnis.

Úrsögn úr sambandinu

6. gr.

Úrsögn úr K.Í. skal vera skrifleg og taka gildi að liðnum þremur mánuðum frá því hún var tilkynnt.

Brottvikning úr sambandinu

7. gr.

Stjórn er heimilt að víkja aðila úr K.Í. um lengri eða skemmri tíma hafi viðkomandi gerst brotlegur við lög K.Í. , eða samþykktir stjórnar þess, þ.m.t. skuldi hann félagsgjöld tvö ár aftur í tímann. Krafa um greiðslu áfallinna félagsgjalda fellur ekki niður þótt aðila sé vikið úr K.Í. Sambandsstjórn skal ávallt leggja ákvörðun um brottvikningu fyrir næsta aðalfund K.Í. til endanlegrar afgreiðslu.

Aðild að heildarsamtökum

8. gr.

K.Í.stefnir að verða aðili að Alheimssamtökum konditora „Union Internationale de la Patisserie, Confiserie, Glacerie (U.I.P.C.G)“, en heimasíðaþeirra samtaka er www.uipcg.com

Aðalfundur

9. gr.

Aðalfundur K.Í. skal haldinn fyrir lok maímánaðar ár hvert. Til fundarins skal boða bréflega með minnst 7 daga fyrirvara.

Dagskrá aðalfundar skal vera:

a) Skipun fundarstjóra og fundarritara.

b) Skýrsla stjórnar.

c) Lagðir fram endurskoðaðir reikningar fyrir liðið starfsár.

d) Fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár.

e) Lagabreytingar.

f) Kosningar:

Kjósa skal formann til eins árs og, stjórn til tveggja ára. Kjósa skal tvo stjórnarmenn í senn, en á fyrsta aðalfundi skal kjósa alla fjóra stjórnarmenn og sitja tveir þeirra stjórnarmanna sem flest atkvæði hljóta í tvö ár, en hinir tveir í eitt ár. Á næsta aðalfundi þar á eftir skulu tveir stjórnsrmenn kosnir til tveggja ára og skal það fyrirkomulag haldast upp frá því. Tveir endurskoðendur skulu kosnir til eins árs í senn.

Nefndir: Laganefnd, 3 menn

Siðanefnd, 3 menn

Fræðslunefnd, 3 menn

Orðunefnd, 3 menn

Keppnis- og sýninganefnd, 3 menn

g) Ákvörðun félagsgjalda.

h) Önnur mál.

Rétt til setu aðalfundar K.Í. skulu allir aðilar hafa sem ekki eru brotlegir við lög þess og samþykktir og skulda ekki félagsgjöld. Lögmætir aðalfundir eru æðsta vald í öllum málefnum sambandsins.

Félagar skulu á aðalfundi bera einkennisklæðnað,konditorjakka, svartar buxur og svarta skó, þeir skulu líka bera hatt með merki sambandsins. Þeir félagar sem K.Í. hefur heiðrað með orðu skulu bera þær á aðalfundi.

Almennir félagsfundir

10. gr.

Almennir félagsfundir skulu haldnir 4 sinnum á ári, eða þegar stjórn þykir þurfa og skal boða til þeirra bréflega eða með tölvupósti þar sem helstu verkefna er getið. Almenna félagsfundi skal halda þegar 1/3 hluti sambandsaðila krefst þess. Geta skal þess hvers vegna fundar er krafist. Kröfu um almenna félagsfundi skal senda formanni sambandsins. Ber honum að boða fundinn innan þriggja daga frá því honum barst krafan. Skulu félagsmenn alltaf klæðast viðeigandi klæðnaði á fundum.

11. gr.

Hver aðili að K.Í. skal fara með eitt atkvæði á fundum, þó með þeirri undantekningu að þar sem tveir eða fleiri aðilar starfa hjá sama fyrirtæki, er aðeins um eitt atkvæði að ræða.

Starfsár

12. gr.

Starfsár félagsins er á milli aðalfunda, en reikningsárið er almanaksárið. Gjaldkeri skal afhenda endurskoðendum K.Í. ársreikning endurskoðunar eigi síðar en viku fyrir aðalfund.

Stjórn

13. gr.

Stjórn K.Í. skipa fimm félagar, sem kosnir eru á aðalfundi. Formann skal kjósa sérstaklega, árlega. Fjóra stjórnarmenn skal kjósa þannig: Tveir menn skulu kosnir til tveggja ára í senn á hverju ári. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Heimilt er stjórnarmönnum að taka við endurkjöri. Formaður skal boða til stjórnarfunda. Skylt er að boða til stjórnarfunda ef tveir eða fleiri stjórnarmenn krefjast þess. Stjórnin ræður málefnum félagsins milli funda. Skal hún annast framkvæmdir á samþykktum félagsfunda og vera í hvívetna á verði um hagsmuni K.Í. Stjórnarfundur er lögmætur ef meirihluti stjórnarmanna er mættur. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum. Kjörgengi til stjórnar hafa allir Konditorar, sem teljast fullgildir meðlimir að K.Í. skv. 4. og 5. gr.

Embætti stjórnar eru:

a. Formaður

b. Vara-formaður

c. Ritari

d. Gjaldkeri

e. Stjórnarmaður

Meðferð lagabrota

14. gr.

Sérhverjum aðila að K.Í. er skylt að hlíta lögum og samþykktum þess. Brot gegn lögum og samþykktum K.Í. varða sektum sem nema skulu að lágmarki minnstu upphæð árgjalda, en að hámarki hæstu upphæð árgjalda, eins og þau eru á hverjum tíma.Stjórn tekur ákvörðun um sektir. Ákvörðun um sekt má skjóta til almenns félagsfundar til endanlegrar ákvörðunar. Ákvörðun slíks fundar telst einungis lögleg að helmingur atkvæðisbærra aðila að sambandinu hafi mætt. Sambandsstjórn er heimilt að innheimta sektina með málssókn.

Félagamerki í eigu K.Í.

15. gr.

Merki K.Í. er þríhyrningslaga kransakaka með texta allan hringinn“ Konditorsamband Íslands.

Aðeins stjórn K.Í. hefur rétt til að ráðstafa þeim til birtingar á umbúðum, í auglýsingum og/eða birta þau með öðrum hætti í kynningarskyni á afurðum sem tengjast vörulínu félagsins er félagamerki taka til.

Láti meðlimur í sambandinu af störfum hjá fyrirtæki sem notar merkingar sambandsins og ekki sé ráðinn annar félagsmaður til starfans, skal fjarlægja með öllu merki í eigu félagsins innan 3 mánaða. Verði ekki fyrirtæki ekki við því, getur sambandið leita réttar síns fyrir dómstólum.

Einungis félagsmenn K.Í. mega kynna og selja vörur sem merktar eru félagamerki í eigu félagsins.

Öll notkun félagamerkja í eigu K.Í., að hluta til eða í heild, í rituðu, lesnu og prentuðu máli, er með öllu óheimil nema með skriflegu leyfi stjórnar sambandsins.

K.Í. Starfrækir og á heimasíðuna https://www.konditor.is/ þar sem upplýsingum um sambandið og fagið verður miðlað.

Með brot félagsmanna gegn þessari grein skal farið skv. 14. gr. laga þessara.

Orðunefnd

16.gr

1.Heiðursorða.

a) K.Í. getur heiðrað þá félagsmenn með “Heiðursorðunni” sem hafa verið virkir í K.Í. í fimm ár og hafa verið atorkusamir í starfi félagsins. Stjórn K.Í. getur gert undanþágu frá þessari reglu í einstökum tilfellum.

b) Viðkomandi þarf að vera góður fagmaður og hafa gott orð á sér í greininni og vera góður fulltrúi K.Í. útávið.

c) Viðkomandi getur sótt um að fá “Heiðursorðuna“.

d) Umsóknin fer þá til orðunefndar sem gefur umsögn sína um viðkomandi, en stjórn K.Í. ræður því að lokum hver fær orðuna.

e) Stjórn K.Í. skipar 3 manns í orðunefnd og einn til vara. Þeir einstaklingar sem stjórn K.Í.skipar í nefndina skulu hafa „Heiðursorðuna“, en það skilyrði á þó ekki við á upphafsárum sambandsins.

f) Orðunefnd getur mælt með manni og borið undir stjórn, án þess að maðurinn sæki um.

g) Orðunefnd sér um allar framkvæmdir á orðuveitingum og einnig öllum verðlaunum á vegum K.Í

h) . Allir sem fá “Heiðursorðuna“ skulu fá skjal frá K.Í. sem tilgreinir hvers vegna viðkomandi fékk orðuna.

i) K.Í. hvetur til að orðurnar séu bornar við viðeigandi tækifæri. Stjórn K.Í. hefur heimild til að svipta mann orðunni þyki brýn og rökstudd ástæða til.

2. Stjórnarorður

a) Formanns orða er orða sem afhent er kjörnum formanni og berist við öll hátíðleg tækifæri fyrir hönd K.Í., og afhendist nýjum formanni að loknu kjörtímabili.

b) Stjórnar orða er orða sem afhent er nýkjörnum stjórnarmeðlim og berist við öll hátíðleg tækifæri fyrir hönd K.Í., og afhendist nýjum stjórnarmeðlim að loknu kjörtímabili.

3. Keppnisorður

K.Í. heiðrar þá félaga sem tekið hafa þátt í alþjóðlegri keppni með diploma og þá sem vinna til gullverðlauna í flokkum landsliða, með keppnisorðu. Sama gildir um þá sem vinna til gullverðlauna í einstaklingskeppnum á alþjóðavísu. Afhendist hún áletruð viðeigandi texta, ásamt veggdiplom með nafni viðtakanda, dagsetningu, keppni, keppnisstað og verðlaunastigi. Skal þetta veitt á árshátíð K.Í. Keppnisorðu fá menn aðeins einu sinni en eftir það eru keppendur heiðraðir með innrömmuðu diploma.

Lagabreytingar

17. gr.

Lögum K.Í. má ekki breyta nema á löglegum aðalfundi, enda hafi þess verið getið í fundarboði að lagabreytingar yrðu til meðferðar á fundinum. Lagabreytingar þurfa samþykki ¾ fundarmanna til að ná fram að ganga.

Andlát.

18 gr.

Látist félagsmaður K.Í. sér stjórnin um að veita aðstandendum samúð, hlýhug og sjá um að senda aðstandendum samúðarskeyti. Félagsfáni og blómsveigur skal hafður við útför í samráði við aðstandendur.

Samþykkt á fyrsta aðalfundi Konditorsambands Íslands 1. mars 2012