Kökugerð á Íslandi fyrr og nú

Grein tekin úr Tímariti iðnaðarmanna 1. tölublaði 1933.

Jeg hefi verið beðinn að rita sögu kökugerðar hjer á landi, frá því fyrsta og fram til vorra tíma, en þar sem rúm er mjög takmarkað verð jeg að láta nægja að stikla á stærstu steinunum. Síðar gefst vonandi tækifæri til að rita ýtarlegar um þróun kökugerðar, jafnhliða þvi sem rituð verður saga brauðgerðar. Alt frá því fyrsta að brauðgerðarhús voru stofnsett hjer á landi hafa kökur verið framleiddar, jöfnum höndum og brauð, að vísu var kökuframleiðslan í mjög smáum stíl fyrst í stað og lengi vel fram eftir, en þokaðist þó hægt og hægt í rjetta átt, einkum og sjerílagi nú á síðustu 15 árum.

Nú mun varla ofsagt að framleiddar sjeu um eitt hundrað mismunandi tegundum í flestum bakaríum hjer í Reykjavik,alt frá smákökum upp í rjómatertur og kransakökur. Mjer hafa sagt eldri menn, að í fyrstu hafi ekki fengist aðrar kökur í brauðgerðarhúsum en smákökur, 2ja aura, jólakökur, sódakökur og stöku sinnum piparkökur. Svo kallaðar„fínni kökur” komu fyrst á markaðinn árið 1890, þá voru það formkökur fyltar aldinmauki og kremi og skreyttar með sykri (glassure).

Um aldamótin komu á markaðinn rjómakökur, fyrst í smáum stil en sem smátt og smátt fór vaxandi fram til ársins 1908 að rjómakökur eru orðnar dagleg verslunarvara í öllum bauðgerðarhúsum hjer í bænum. Aðal ástæðan fyrir því að rjómakökur urðu ekki almenn verslunarvara fyr en þetta, var sú að erfitt var að fá rjóma, en þegar bílar tóku að flytja mjólk úr nálægum hjeruðum til bæjarins, gátu brauð-gerðarhús næstum daglega fengið nægilegan rjóma til notkunar. Fyrsta kökugerðarhús hjer í Reykjavík var sett á stofn árið 1909, svokallað „Skjaldbreið”og voru þar eingöngu bakaðar kökur. Annað var stofnsett árið 1912 og það þriðja 1919 á Laugaveg 5.

Eftir það fór kökugerðum óðum fjölgandi og fjölgaði þá jafnhliða kökutegundum bæði að tölu og fjölbreytni, og er nú svo komið hjer eins og víða í öðrum löndum að kökugerð er orðin sjergrein innan bakaraiðninnar. Samkvæmt lögum um iðju og iðnað frá 1928, ber hverjum iðnnema „hjálparlaust að leysa af hendi prófsmíð, eða inna af hendi eitthvert það verk, er sýni, að hann sje fullnuma i iðn sinni”. Með lögum þessum er stórt spor stígið í rjetta átt til að fyrirbyggja, að lítt lærðir menn geti tekið að sjer störf þeirra sem lokið hafa fullnaðarprófi i iðn sinni.

Fyrsta próf í kökugerð var tekið hjer í Reykjavik 20. april 1926 í kökugerðarhúsinu á Laugaveg 5. Síðan hafa kökugerðarpróf verið tekin í fleiri bakaríum hjer i bænum. Fyrst framan af voru það aðallega erlendir menn sem störfuðu að kökugerð hjer á landi, þar eð innlendir bakarar kunnu lítið í kökugerð, en brátt tók áhugi íslenskra bakara að vakna og framtakssamir ungir menn fóru utan og lærðu kökugerð sem sjergrein. Nú er svo komið að næstum hver einasti „sveinn” siglir til frekari mentunar, eftir að hafa lokið fullnaðarprófi hjer og mun bakarastjettin nú vera skipuð nærri eingöngu Íslendingum. Eins og skýrt var frá í Morgunblaðinu 24.og 26. þ.m. var í vetur að tilhlutun Bakarameistarafjelags Reykjavikur starfræktur verklegur skóli, fyrir kökugerðarsveina og bakara, sem áhuga höfðu fyrir kökugerð og skreytingu.

Það hefir sýnt sig í vetur að full þörf var á starfrækslu slíks skóla og er vonandi að hann eigi sjer langa framtíð til gagns fyrir bakarastjettina í heild. Að lokum vil jeg minnast á kexgerð og segja í fáum orðum sögu hennar. Fyrsta kexgerð sem starfrækt hefir verið hjer á Iandi var kexverksmiðjan „Fón” stofnuð árið 1923 af Ágústi Jóhannessyni, brauða- og kökugerðarmanni. Framleiðslan var lítil í fyrstu en fór vaxandi fram til ársins 1926 að verksmiðjunni var breytt í hlutafjelag. Eftir það var verksmiðjan stækkuð og keyptar fulkomnustu nýtískuvjelar. Verksmiðjan mun nú framleiða um 40 mismunandi kextegundir. Önnur kexverksmiðja var stofnuð í Hafnarfirði árið 1929 af Ásmundi Jónssyni, bakaram. og að því jeg best veit með fullkomnustu nýtísku vjelum. Jeg vona nú að mér hafi tekist að gefa lesendum þessarar greinar dálitla hugmynd um kökugerð hér á landi, bæði fyr og nú og læt hjer staðar nema, en að síðustu vil jeg óska þess að iðngreinum hjer á landi mætti fjölga og blómgast og verða landi voru og þjóð til heiðurs, heilla og blessunar.

Reykjavík, 29. apríl 1933.

© St. Sandholt,