Ég reyndi að flytja sem mest af heimsmenningunni hingað heim með mér
Um mánaðamótin apríl-maí 1980 var Björn Björnsson stórkaupmaður frá Lundúnum staddur í Reykjavík vegna viðskiptamála. Ég átti tal við hann í herberginu þar sem hann bjó á Hótel Loftleiðum og 1. maí gengum við saman í gegnum miðbæinn, staðnæmdumst fyrir framan Björnsbakarí og við Reykjavíkur apótek. Þaðan gengum við inn í Hressingarskálann og horfðum þaðan út í garðinn sem er að baki hússins.
Efnislega sagði Björn mér þetta m.a.: Ég fæddist á Sauðárkróki 6. apríl 1898. Foreldrar mínir voru Kristín Björnsdóttir og Björn Símonarson gullsmiður. Björn var seinni maður Kristínar. Hún var 19 ára gömul er hún giftist Árna Björnssyni, þáverandi póstmeistara á Akureyri. Þau eignuðust einn son, Harald, sem síðar varð góðkunnur kaupsýslumaður í Reykjavík. Árni póstmeistari varð skammlífur. Nokkru eftir andlát hans giftist Kristín föður mínum, Birni. Þau eignuðust tvo sonu, Árna Björn, sem fæddur var 1896 og mig tveimur árum síðar. Árni Björn varð seinna kunnur gullsmiður og kaupsýslumaður í Reykjavík. Foreldrar mínir fluttu frá Sauðárkróki til Reykjavíkur aldamótaárið.
Fyrst keyptu þau sér hús við Laugaveg þar sem faðir minn setti upp vinnustofu en árið 1905 keyptu þau húsið við Vallarstræti 4. Sturla Jónsson kaupmaður hafði átt húsið.
Sturla rak brauðgerð í kjallara hússins þar sem gluggar undir þaklofti voru ofan jarðar. Þetta bakarí var kennt við eigandann og nefnd Sturlubakarí. Eftir að Björn Símonarson keypti húsið hélt hann áfram brauðgerðinni. Nafn bakarísins breyttist fljótlega og varð kennt við nýja eigandann og nefnd Björnsbakarí. Þar sem við stöndum nú framan hússins getum við enn séð móta fyrir gluggum brauðgerðarinnar. Sjálft bakaríið, þar sem fólk keypti mjólk, brauð og kökur, var á neðstu hæð til hægri. Til vinstri handar var gengið inn í gullsmíðastofu og búð föður míns. Á annarri hæð til hægri var gengið inn í veitingastofu. Vinstra megin var íbúð foreldra minna og herbergi okkar á efstu hæðinni. Eftir að faðir minn keypti húsið lét hann setja á það svalir og kvisti. Séð úr nokkurri fjarlægð er útlit hússins nú svipað og það var eftir að faðir minn var búinn að gera á því endurbæturnar. Þegar komið er nær sé ég að það er alveg satt sem þú sagðir mér á leiðinni hingað. Kórónan mín blessuð er þarna enn á sínum stað. Það væri gaman ef þú létir taka mynd af henni áður en einhverjir vandalir eyðileggja hana.
Það er dálítið einkennilegt að standa hér 82 ára gamall og horfa á þetta gamla tákn um það æskuþrek sem einkenndi mann endur fyrir löngu. Ég gerði nefnilega ekkert billega skal ég segja þér, var skratti áræðinn, ég segi ekki ófyrirleitinn, en áreiðanlega fulldjarfur stundum. Við skulum koma seinna að þessu með kórónuna. Svo ég haldi áfram með að draga örfáar útlínur ævisögu minnar, þá bjuggum við öll þarna í húsinu við Vallarstræti til ársins 1914. Þá dó faðir minn og bróðir minn, Árni Björn, tók þá upp þráðinn þar sem hann féll niður með föður mínum, gerðist gullsmiður. Móðir mín átti heima í húsinu til þess er hún dó árið 1927. Eins og ég var búinn að segja þér hvarf ég héðan af landi árið 1935, fór fyrst til Danmerkur og Svíþjóðar en síðar til Lundúna þar sem ég er nú búinn að búa í rúma fjóra áratugi.
Ég kvæntist Huldu dóttur Carls Bjarnasen kaupmanns 27. júlí 1922. Við eigum tvær dætur sem báðar eru giftar enskum mönnum og búsettar í Lundúnum. Áður en við hverfum til athafnasögu minnar hér í Reykjavík má e.t.v. geta þess að ég hef, þrátt fyrir langa dvöl í útlöndum, alltaf reynt að vera góður Íslendingur. Ég átti frumkvæði að stofnun Íslendingafélagsins í Lundúnum og var formaður þess lengi. Ég hef alltaf reynt að greiða götu þeirra Íslendinga sem komið hafa til Lundúna. Sennilega er ég rómantískur þjóðernissinni eins og einhvern tíma var sagt um mig í sambandi við baráttu mína fyrir almennri viðurkenningu á því að það var 1. desember 1918 sem við fengum fullt sjálfstæði en ekki 17. júní 1944 eins og alltof margir staðhæfa nú.
Það er rétt sem þú segir: Ég er ennþá mjög sprækur, líkamlega og andlega tel ég mig vera sæmilega á mig kominn. Ég þakka það því m.a. að ég hóf ungur Müllersæfingar og hef síðan alltaf iðkað líkamsæfingar. Ég reyki ekki og hef aldrei notað áfengi óhóflega. Ég þarf alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni. Núna er ég t.d. að aðstoða við að selja garnir til útlanda í samvinnu við S.Í.S. og svo er ég hér að hjálpa til við að undirbúa komu breskra fjallgöngumanna til Íslands. Ýmislegt annað er ég raunar að bralla í sambandi við kaupskap. Þess vegna mun ég hafa nóg að gera þessa daga sem ég ætla að vera hér heima, auk þess sem mér þykir það fullbrúklegt erindi að ganga um fornar slóðir, hitta gamla og nýja vini og njóta þess að horfa á Esjuna mína blessaða. En látum þetta nú nægja um mig eftir að ég flutti að heiman og víkjum aftur til Vallarstrætisins þar sem við vorum staddir áðan.
Fyrst langar mig að biðja þig um að geyma það hjá þér að faðir minn var mikill hagleiksmaður. Fyrsta iðnsýningin var haldin hér árið 1911. Þar kom Thor Jensen á framfæri grip, sem gerður var úr gulli og mun Thor hafa talið að sá sem grip þennan gerði myndi fá fyrstu verðlaun sem átti að veita gull- og silfursmiðum. En faðir minn sendi víravirki sem hann hafði smíðað úr silfri. Þessi gripur hans fékk fyrstu verðlaun og var mér sagt að Thor hefði þótt það mjög miður. Móðir mín var mikilhæf kona. Hún stýrði stóru heimili og rak veitingastofuna sem var á annarri hæð hússins. Þessi veitingastofa rúmaði sennilega um 30 gesti. Þar gátu menn fengið keypt kaffi og kökur. Eldhúsið var á hæðinni ofan stofunnar en brauðsölubúðin neðan hennar. Í búðinni gátu viðskiptavinir keypt sér mjólkurglas og vínarbrauð sem þeir neyttu í búðinni.
En ef menn vildu setjast við borð, þá varð að fara upp í veitingastofu. Þar gátu gestir einnig fengið keypt skyr. Aðrar veitingar voru ekki á boðstólum. Þetta var fyrst og fremst kaffistofa Café eins og áletrunin bar vott um sem fest var á húsið. Eftir lát föður míns tók móðir mín við forsjá fjölskyldunnar. Ég mun hafa verið 15 eða 16 ára gamall þegar móðir mín tók mig tali og hóf að ræða framtíð mína. Hún sagði: Haraldur ætlar að verða kaupmaður, Árni Björn gullsmiður. Þá vantar okkur einhvern til að taka við bakaríinu. Þar með voru örlög mín ráðin. Ég átti að verða bakari.
Ég hóf svo nám í brauðgerðinni. Því námi lauk ég aldrei er ýmsum, sem vita að ég varð síðar formaður Bakarameistarafélags Reykjavíkur, mun þykja undarlegt. En þá var ég meistari í kökugerð. Þess vegna varð ég fullgildur til formennsku í bakarameistarafélaginu þó ég yrði aldrei brauðgerðarsveinn. Danskir brauðgerðarmenn unnu í bakaríinu. Þá þótti ekkert fínt nema það sem danskt var. Petersen hét sá sem var fyrirliði þegar ég hóf námið árið 1914.
Mér þótti brauðgerðin alltaf fremur leiðinlegur starfi. Hún var tilbreytingarlaus og erfið. En mig langaði snemma til að læra meira í sambandi við veitingarekstur og þá fyrst það sem laut að kökugerð. Fyrir milligöngu Olsens, sem var annar eiganda firmans Nathan & Olsen, var mér útveguð vist í konditoriinu Cloetta sem var mjög fínn veitingastaður við Amagertorv í Kaupmannahöfn. Eigandi hans, Svisslendingurinn Cloetta, hafði komið ungur til Danmerkur. Hann var kökugerðarmeistari konditör. Þessi veitingastaður naut að makleikum mikils álits í Kaupmannahöfn. Ég var í tæp tvö ár í Kaupmannahöfn og lauk þar sveinsprófi í kökugerð árið 1920. En ég vildi læra meira.
Þess vegna fór ég til Parísar þar sem ég fékk vinnu í Patissiere kökugerð. Þar var ég í hálft ár. Þaðan fór ég til Geneve og dvaldi þar um tíma. Í öllum þessum þrem borgum reyndi ég með námi og vinnu við kökugerð að kynna mér sem allra flesta þætti veitingareksturs. Þess vegna var ég um tíma þjónn á Cloetta og í París og Geneve reyndi ég að afla mér margvíslegrar þekkingar til undirbúnings því að geta síðar sett upp sjálfstæðan veitingarekstur heima. Frá Frakklandi kom ég með ýmislegt sem ég ætlaði að nota heima m.a. stórt marmaraborð sem sett var í húsnæði kökugerðarinnar. Ég innréttaði sérstaklega þann hluta kjallarans sem var undir bakaríinu. Á húsið setti ég skilti með orðunum Frakknesk Svissnesk kökugjörð. Ég segi alltaf gjörð en ekki gerð tel það réttara. Halli Jóh. faðir Matta á Mogganum gerði grín að þessu og spurði hvort hann mætti sjá þessa gjörð mína. Með orðunum Frakknesk Svissnesk vildi ég brjóta blað, rjúfa þann danska vítahring sem alltof lengi var búinn að umlykja okkur. Ég sá það best eftir að hafa verið í Frakklandi og Sviss að Danir voru mestu sveitamenn í kökugjörð í samanburði við Frakka og Svisslendinga. Þar voru þó undantekningar. Ég fékk fyrst til starfa með mér danskan kökugjörðarmann sem var mjög leikinn og duglegur starfsmaður. Það var árið 1921 sem ég hóf starfsemina hér í Reykjavík með því að hasla mér völl sem kökugjörðarmaður. En alltaf vakti fyrir mér að stefna til þess að koma upp sjálfstæðum veitingarekstri, öðrum og meiri en þeim sem rekinn var í húsi okkar.
Reyndar var sú veitingastarfsemi alla tíð í fremstu röð og mjög vinsæl meðal Reykvíkinga og þeirra útlendinga sem sóttu okkur heim t.d. dönsku sjóliðanna. Við höfðum tónlist uppi gestum til skemmtunar, spiluðum aðallega klassískar plötur. Það gerði ég raunar líka í veitingastofunni þar sem Reykjavíkur apótek er núna og síðar í Hressingarskálanum. Þetta var hluti þess sem réttilega má kalla menningu, fallegt og klassískt en ekki sá yfirþyrmandi hávaði sem alla er nú að æra. Ég reyndi alltaf að flytja sem allra mest af heimsmenningunni hingað heim með mér.
Í kökugjörðinni kom ég heim með ýmsar nýjungar. Frá Frakklandi kom ég með form til þess að steypa í páskaegg. Ég varð fyrstur til að koma þeim hér á markað. Þá bjó ég einnig til marga fagra og lostæta marsipanmuni sem bæði voru til augnayndis og munngætis. Þetta var nýjung hér í Reykjavík sem einkum varð vinsæl um jólin. Ég dró skörp skil milli brauð- og kökugjörðanna þar sem annars vegar var orðið við hefðbundnum kröfum til kaupa á brauðum og öðrum brauðbúðarvarningi og hins vegar kökugjörðinni þar sem leitast var við að gera það sem listrænt var og brjóta upp á nýjungum. Rjómabollurnar mínar urðu mjög vinsælar. Til dæmis um það skal ég segja þér að í byrjun marsmánaðar 1927 efndi ég til hinnar árlegu getraunar meðal bæjarbúa um það hve margar bollur Björnsbakarí myndi selja á bolludaginn.
Af þeim tveimur þúsundum bæjarbúa sem þátt tóku í keppninni gat enginn giskað réttilega á að þann dag seldum við 17020 bollur. Það var ekki svo lítið þegar haft er í huga að bæjarbúar hafa þá varla verið fleiri en rúmar 20 þúsundir. Og þar sem ég var fyrstur til að framleiða hér rjómabollur á bolludaginn þá var ég talsvert upp með mér af þessum árangri. Þegar Kristján tíundi konungur sjálfstæðs Íslands kom hingað í heimsókn árið 1921 fól framkvæmdanefndin mér að baka þær kökur sem konungi og fylgdarliði hans voru bornar meðan gestirnir áttu hér viðdvöl frá 26. júní til 4. júlí. Þetta var ekki einungis vel þegin viðurkenning á að mér væri vel treystandi heldur leiddi þetta einnig til þess að árið eftir fékk ég viðurkenninguna Konunglegur hirðbakarameistari.
Þetta jók mjög á virðingu mína og sölu á því sem ég hafði á boðstólum. Auðvitað setti ég kórónuna á bréfsefni mín og allan þann borðbúnað sem ég keypti síðar til fyrirtækja minna. Allt er þetta nú eflaust týnt og tröllum gefið nema kórónan á hurðinni þar sem gengið var inn í kökugjörð mína. Hún er þar enn. Blessaður láttu taka mynd af henni áður en hún verður eyðilögð. Ég gleymdi að segja þér að ég bjó líka til konfekt í kökugjörð minni. Skrifaðu það hjá þér. Ég man ekki lengur hvenær það var sem ég setti upp Soda-fountain í húsi Nathans & Olsen en það má vel vera að það sé rétt sem segir um það í grein sem birt var í Morgunblaðinu þegar ég varð áttræður, að það hafi verið árið 1929. Ég er búinn að gleyma því.
En nú skal ég segja þér frá hvernig þetta var. Ég taldi að það væri grundvöllur fyrir að koma upp soda-fountain hér í Reykjavík. Þess vegna fékk ég húsnæði leigt í húsi Nathans & Olsen. Það var í álmunni sem er til hægri handar, Pósthússtrætismegin þegar gengið er inn á horninu. Ekki þori ég að segja nákvæmlega til um hve stórt húsnæðið var, en mig minnir að það hafi að lengd náð inn fyrir tvo nyrstu gluggana á hliðinni. Þó að það kunni að vera rétt sem segir um ártalið í Morgunblaðsgreininni þá er það rangt að ég hafi nefnt þennan nýja veitingastað Hressingarskála. Ég kallaði hann aldrei annað en Soda-fountain.
Nafnið Hressingarskáli kom til sögu eftir að ég var kominn með veitingastarfsemina í húsið við Austurstræti 20, en þá var ég búinn að loka barnum eða hvað við eigum nú að kalla þennan Soda-fountain minn á íslensku. Ég fór á sýningu í Englandi þar sem ég sá þau tæki sem ég keypti. Það var m.a. sjálfvirk kaffivél sem blandaði í með gufu kaffi í einn bolla í senn og kæliborð þar sem ísinn var geymdur. Þessi kanna mín var sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi og íssalan var líka nýjung. Þar var unnt að fá ís með mjög margvíslegum tegundum af bætiefnum. Ég hafði þetta allt á verðlistum þar sem kórónan mín trónaði vitanlega. Afgreiðsluborð var á vinstri hönd þegar inn var komið. Bak við það stóð fólk sem lét viðskiptavini fá þá gerð af ís sem þeir vildu eða/og kaffi. Borð voru með endilöngum gluggavegg, Pósthússtrætismegin.
Ekki þori ég að fullyrða hve margir gestir gátu verið þar samtímis. Ætli það hafi ekki verið milli 30 og 40? Ég held það. Framreiðslustúlkur voru auðvitað í veitingastofunni. Og þegar ég opnaði var breskur starfsmaður í þjónustu minni til að kenna stúlkunum mínum réttu handtökin og fylgjast með að framreiðsla þeirra væri óaðfinnanleg.
Ég man ekki hve lengi við vorum þarna en það var fremur stutt og bar þar tvennt til. Í fyrsta lagi þurfti eigandinn á húsnæðinu að halda og í öðru lagi var ég búinn að fá augastað á Austurstræti 20. Mig minnir að það hafi verið fyrir milligöngu Haralds bróður míns. Ekki þori ég neitt að fullyrða hvers konar starfsemi var í húsinu áður en ég kom þangað. Var það ekki þar sem Árni Thorsteinson bjó? Það var aðallega garðurinn bak við húsið sem freistaði mín. Ég eygði þar þá möguleika sem ég hagnýtti mér ágætlega síðar. Hvernig sem það atvikaðist nú er aðalatriðið að ég fékk húsið á leigu til veitingareksturs niðri og skrifstofu uppi. Og svo var það garðurinn. Mig minnir að það væri Gunnar í Stálhúsgögn já það var áreiðanlega hann sem smíðaði alla stólana fyrir mig. Þetta var eitt af allra fyrstu verkefnum þeirra í Stálhúsgögn. Það fyrirtæki var stofnað árið 1933 svo að allt getur þetta staðið heima.
Stólarnir voru þannig gerðir að það var auðvelt að hlaða þeim saman og það gat verið nauðsynlegt að gera í flýti ef koma þurfti þeim skyndilega inn úr garðinum undan rigningu. Ekki man ég nú hve margir stólarnir voru, en áreiðanlega hafa þeir verið rúmlega eitt hundrað. Ég held að unnt hafi verið að rúma 50 gesti inni og áreiðanlega álíka marga úti í garði. Ég er hér með mynd utan úr garði þar sem sjá má stólana hans Gunnars. Þeir voru bæði smekklegir og traustir. Ég tel að innrétting veitingastofunnar hafi ekki verið mjög framúrstefnuleg. En hún var smekkleg.
Á veggjunum hafði ég stækkanir á gömlum myndum úr Reykjavík til þess að tengja saman fortíð og nútíð. En úti lét ég koma fyrir ljóskerum á trjánum til þess að geta brugðið marglitri birtu yfir garðinn þegar rökkvaði og unnt var að sitja úti í góðviðri. Þetta var algjör nýjung hér á landi. Inn í þetta rómantíska umhverfi leiddi ég svo klassíska músik frá grammafóni, lét eingöngu spila góða músík.
Þannig reyndi ég á öllum sviðum að skapa fagurt og menningarlegt umhverfi. Yfirleitt var nýbreytni minni tekið mjög vel af bæjarbúum og þeir útlendingar sem komu til okkar höfðu orð á að þetta væri nú eitthvað annað en það Ísland sem þeir höfðu gert ráð fyrir að sjá hér. Til mín komu margir nafnkunnir útlendingar. Balbo og nokkrir félaga hans voru í þeim hópi. Það var Magnús Sigurðsson bankastjóri sem hafði milligöngu um það. Ég lét þá prenta matseðil með kórónunni og íslensku og ítölsku fánalitunum. Ég ræddi við Balbo sem hafði orð á hve gaman honum þætti að koma í hinn fagra garð okkar. Margir góðkunnir bæjarbúar voru fastagestir okkar og margt ástarævintýrið hófst áreiðanlega eða átti skemmtilega viðdvöl í garðinum okkar. Á veturna var garðurinn vitanlega lokaður en strax og örugglega var farið að vora opnuðum við hann. Framreiðslufólk gekk þar um beina en auk þess mátti fá kaffi sem afgreitt var innan lúgu út í garðinn.
Ég var annar í röð stofnenda Skíðafélags Reykjavíkur. Gaman þótti okkur L.H. Möller að reisa skíðin okkar upp við skálaveggina þegar við komum aftur í bæinn að lokinni skíðaferð og gott var þá að setjast inn með kunningjunum, spjalla saman og fá sér hressingu. Mat seldum við einungis í hádegi, oftast einhvern einn rétt en aðallega veittum við kaffi og kökur. Verðlagið skiptir ekki lengur neinu máli þar sem samanburð vantar. En skyrið í veitingastofunni við Vallarstræti kostaði eina krónu og hádegisverður á Hressingarskálanum eina krónu og tuttugu og fimm aura. Mig minnir að við höfum verið um 10 sem unnum saman á Hressingarskálanum. Það var þó eitthvað breytilegt t.d. fleira að sumarlagi vegna starfseminnar í garðinum.
Þú spyrð um hin góðkunnu gardenpartý mín. Það var nú bara fyrst og fremst auglýsingin. Ég auglýsti líka sólarkaffi í útvarpinu þegar útlit var fyrir gott veður. Gardenpartý auglýsti ég á sama hátt. Það voru engar skipulagðar samkomur, einungis hvatning til fólks um að koma og njóta veitinga í garðinum okkar. Þó að fyrirmyndir mínar í kökugjörð og nýbreytni í veitingastörfum væru nýlunda hér í Reykjavík þá voru þær sóttar til útlanda. Mitt hlutverk var það eitt að samræma þær aðstæður hér heima. Sjálfur held ég að mér hafi tekist það bærilega.
Vænst þykir mér um að trúa því að ég hafi lagt lítið lóð á metaskál lífsins til þess að auka fegurð og gleði þeirra sem komu til mín og etv. var mest gaman að sjá ungu stúdentana með hvítu kollana sína koma til myndatöku út í garðinn minn þar sem vorgróðurinn og sólskinið beið þeirra oft. Það var líka gaman á síðsumri í garðinum þegar kvöldhúmið var að baki ljósanna sem brugðu ljúfri birtu yfir þá sem áttu sér vinafundi úti í garðinum mínum góða.
Ég fór svo frá öllu hér árið 1935. Haraldur bróðir minn tók að sér ráðstöfun eigna minna. Ragnar Jónsson tók við skálanum og kökugjörð mín lagðist niður. Eins og ég sagði þér áðan hef ég átt heima í útlöndum frá 1935 og einungis komið hingað heim sem gestur. Ég er þó og verð alltaf vona ég fyrst og fremst Íslendingur.
Ég hef einnig reynt að verða góður heimsborgari. Ég held að til þess að verða góður þjóðernissinni sé nauðsynlegt að vera líka góður heimsborgari. Í því sambandi vil ég minna á að sú þjóðlega list ein er góð sem einnig er alþjóðleg. Á sama hátt getur allt það alþjóðlega sem gott er einnig orðið þjóðlegt ef það er fellt í þau form sem þjóðleg eru. Það er einmitt það sem ég reyndi að gera eftir að ég kom hingað heim frá útlöndum og í útlöndum hef ég reynt að kynna það sem ég tel ávinning að hafa eignast vegna þess að hér er ég borinn og barnfæddur.
Ég held að þú sért búinn að fá að heyra það um mig sem ég vil helst að geymist til endurminninga um veitingarekstur minn hér. En etv. má bæta því við sem sagði um mig í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sunnudaginn 9. apríl 1978, nokkrum dögum eftir áttræðisafmæli mitt. Björn Björnsson starfrækti á sínum tíma stærstu brauð- og kökugerð á Íslandi sem ber nafn föður hans, Björnsbakarí, og varð brautryðjandi í iðn sinni. Hann hóf einnig veitingarekstur í Hressingarskálanum eins og gamlir Reykvíkingar muna og setti skálinn og fagur trjágarður á baklóðinni við Austurstæti rómantískan svip á miðbæinn þegar hann var upp á sitt besta. Var garðurinn upplýstur á kvöldin og undi fólk sér þar vel við tónlist í fögru umhverfi. Þá var Austurstræti umvafið þeirri hlýju birtu og skáldlegu fegurð sem Tómas lýsir í samnefndu kvæði. Slíkur veitingastaður bar siðmenningu vott eins og þeir vita sem þekkja til kaffihúsalífs í erlendum stórborgum. Á það má minna að breska stórskáldið og Íslandsvinurinn, Auden, kunni vel að meta Hressó, eins og sjá má á Íslandslýsingu hans.
Viðtal þetta var fengið úr sögu ferðaþjónustunnar hjá SAF og birt með góðfúslegu leyfi SAF.