Neysla á heilkornavörum getur lengt lífið

Helgi Steinar Karlsson og Sigurður Már Guðjónsson
Íslenskur iðnaður
17.06.2016
Volcano bakery
Haukur Leifs opnar íslenskt bakarí á Nýfundnalandi
31.08.2016
Sýna allt

Neysla á heilkornavörum getur lengt lífið

Heilkornabrauð

Niðurstöður tveggja rannsókna sem birtar voru nýlega renna enn frekari stoðum undir ráðlegginguna „Heilkorn minnst tvisvar á dag”.

Í júní síðastliðnum voru birtar niðurstöður rannnsóknar í ritrýnda tímaritinu British Medical Journal sem sýndu að neysla á heilkorni var tengd minni hættu á hjarta- og æðasjúkdómum, krabbameini og dauða af völdum fjölda sjúkdóma.

Niðurstöðurnar sýndu að þeir sem neyttu þriggja skammta af heilkornavörum á dag voru í 22% minni áhættu að fá hjarta- og æðasjúkdóma, heildar dánartíðni var 18% lægri, 14% lægri dánartíðni af völdum heilablóðfalls og 15% lægri dánartíðni af völdum krabbameins.

Mestur ávinningur sást hjá fólki þar sem neyslan jókst úr engri neyslu í tvo skammta af heilkornavörum á dag. Þetta jafngildir 60 g af heilkornavöru, t.d. tvær sneiðar af heilkorna brauði.

Rannsakendur við Harvard T.H. Chan School of Public Health birtu einnig í júní s.l. niðurstöður annarrar rannsóknar sem sýndu svipaðar niðurstöður og sú fyrri. Neysla á heilkorni getur minnkað hættu á ótímabærum dauða. Rannsóknin var birt á rafrænu formi í ritrýnda tímaritinu Circulation.

Niðurstöðurnar sýndu að heildardánartíðni þeirra sem neyttu þriggja skammta af heilkornavörum á dag var 20% lægri en hinna sem borðuðu lítið eða ekkert af heilkorni. Dánartíðni af völdum hjarta- og æðasjúkdóma var 22% lægri í þeim hópi og 15% lægri dánartíðni af völdum krabbameins.

Niðurstöðurnar í samræmi við íslenskar ráðleggingar
Þessar niðurstöður styðja eindregið við þær ráðleggingar sem eru í gildi hér á landi um að auka neyslu á heilkornavörum í að minnsta kosti tvo skammta á dag.
Í ráðleggingunum er fólk hvatt til að velja brauð eða aðrar matvörur úr heilkorni. Nota t.d. heilkorn í bakstur og grauta og bygg, hýðishrísgrjón og heilkornapasta sem meðlæti í stað fínunninna vara. Skráargatið og Heilkornamerkið geta aðstoðað við hollara val.

Greint frá á vef Landlæknis.

Mynd: úr safni