Sérhagsmunasamtök sýna klærnar

Helgi Steinar Karlsson og Sigurður Már Guðjónsson
Einkavæðing iðnnáms
09.10.2015
Makkarónur
Kökugerð bjargað af aftökulista Iðnaðarráðuneytisins – Loks fullgild iðngrein á Íslandi
18.01.2016
Sýna allt

Sérhagsmunasamtök sýna klærnar

Helgi Steinar Karlsson og Sigurður Már Guðjónsson

Helgi Steinar Karlsson og Sigurður Már Guðjónsson

Blaðamaður Veitingageirans Sigurður Már bakara- og kökugerðarmeistari er með tímamótagrein í Morgunblaðinu í dag á bls. 26 í félagi við Helga Steinar múrarameistara.

Mörgum iðnaðarmönnum hefur verið það hulin ráðgáta afhverju svona fast hefur verið sótt að iðngreinunum. Þeir félagar fara ítarlega yfir hvað er að gerast bak við tjöldin hjá Samtökum atvinnurekenda og eins má lesa í meðfylgjandi grein um gátuna hver stendur fyrir þessari aðför gegn iðnnámi og lögverndun iðngreina.

Sérhagsmunasamtök sýna klærnar

Hart er sótt að lögverndun iðngreina þessa dagana.  Frá því í október 2013 þar til á haustmánuðum 2015 heyrðist ekkert af væntanlegri endurskoðun iðnaðarlaga. Það breyttist  með grein í Viðskiptablaðinu hinn 13. ágúst síðastliðinn undir yfirskriftinni „Afnám einokunar mætir andstöðu“. Höfundi  vex í augum að iðnstörf séu frátekin handa þeim sem hafa sérhæfingu á tilteknu sviði. Það er undarleg afstaða að fagþekking og færni teljist til einokunar sem eigi að afnema. Næsta skref taka  þeir saman  Frosti Ólafsson framkvæmdastjóri og Björn Brynjólfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, með því að birta átta síðna langloku á vef  sínum hinn  8. sept  2015  sem þeir nefna “Banvænn biti”.

Við lestur skrifanna kemur fyrst upp í hugann að höfundarnir ættu að snúa sér frekar  að  því sem þeir sjálfir hafa menntað sig til. Svo virðist sem þessir svokölluðu sérfræðingar álíti að fagkröfur, sem liggja að baki iðnnámi, séu úreltar. Þær séu settar fyrst og fremst til að halda öllum frá sem vilja starfa við iðnstörf.  Öllum er frjálst að læra það sem hugur þeirra stendur til. Fólk getur hins vegar ekki tekið að sér krefjandi og  vandasöm verkefni sem það hefur ekki menntun né þekkingu á. Það sanna ótal dæmi um fúsk og vankunáttu við iðnstörf. Í ritsmíðinni stendur: „Þá var niðurstaða umfangsmikillar rannsóknar að starfsfólk í lögvernduðum greinum hefur 28% hærri tekjur en þegar störfin eru frjáls“. Er þessi setning kannski leiðarljósið? Sem sagt: Með því að gjaldfella sem mest af iðnmenntun og fella burt sem mest af lögverndun iðna er hægt að komast af með minni launakostnað í greinunum. Og það er biðlað til stjórnvalda: „Þrýstihópar sem gæta hagsmuna fárra hafa svo mikil áhrif að stjórnvöld eru vanmáttug þegar kemur að því að draga úr sérréttindum þeirra. Í slíkum tilfellum er þörf á pólitískri forystu til að knýja fram breytingar sem þjóna hagsmunum heildarinnar“ . Svo virðist að markmið forystumanna Viðskiptaráðs Íslands sé að gjaldfella gæði og fagmennsku með því að kollvarpa lögverndun iðngreina. Okkur er spurn: Hagsmuna hverra gætir Viðskiptaráð Íslands?

Í Viðskiptablaðinu 20. ágúst sl. var talað við Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðarráðherra og Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formann Samtaka iðnaðarins. Ráðherrann var afdráttarlaus: „Iðnaðarlögum og löggltum iðngreinum meðal annars vera ætlað að tryggja gæði,  öryggi, almannaheilbrigði og neytendavernd. Ríkir almannahagsmunir eru fyrir því að tryggt sé að ákveðin verk séu unnin af fagmönnum. Þá sé mikilvægt að áfram verði í landinu nauðsynleg iðn- og fagþekking. Slík þekking gæti í einhverjum tilfellum glatast ef lögverndun yrði felld úr gildi“.

Afstaða formanns SI kom hins vegar á óvart. Guðrún  segir að samtökin leggi  áherslu á að iðnaðarlöggjöfin  sé  í takt við tíðarandann. Okkur sýnist orðin merkja t.d. að flytja megi hingað starfsfólk, ómenntað í byggingargeiranum, til að byggja hús sem standa eigi til frambúðar. Er það rétt og farsæl stefna? Guðrún sagðist líka vera talskona þess að engin kerfi komi fram til að vera, öll kerfi verði að vera síbreytileg og slá með hjarta samfélagsins. Þá telur hún að “fækka megi löggiltum iðngreinum”.

Í Viðskiptablaðinu hinn 10. september sl. var forsíðuviðtal við Þorstein Víglundsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins (SA), þar sem fram kemur  gera þurfi umbætur á kjarasamningslíkaninu.“ Launahækkanir fari stigvaxandi og það stefni í algjört óefni er ekkert verður að gert“. Vert er að benda á að SA heldur utan um samningsrétt félaga Iðnmeistara. Það er því stutt að fara fyrir Þorstein Víglundsson  hvað fagfélög iðnmeistara varðar.

  Hinn 23. september sl. var  eftirfarandi haft eftir Almari Guðmundssyni, framkvæmdastjóra SI, í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins: Hann sagði að mikilvægt sé að færa iðnaðarlög til nútímans. Í iðnaðarráðuneytinu er áhugi á endurskoðun starfsheita og lögverndun iðngreina. Tímabært sé að endurskoða lögin. Hér er um afar merkilega afstöðu að ræða þar sem flest öll aðildarfélög iðnaðarmanna innan SI lögðust árið 2012 eindregið gegn breytingu á iðnaðarlögunum. Hvað hefur breyst? Hópur iðnmeistara hafði strax samband við iðnaðarráðuneytið sem staðfesti með tölvupósti  að engin vinna hefði átt sér stað síðan 23. október 2013 um afnám lögverndunar iðngreina. Iðnmeistarafélögin voru aldrei upplýst um að breytingar á iðnlöggjöfinni  stæðu til  af hálfu SI. Hver er því að segja satt?

Árið 2004 var felld niður lögverndun á helmingi allra löggiltra iðngreina í Þýskalandi. Afleiðingin var faglegt hrun. Gríðarlega mikil fagþekking er að tapast, kostnaður samfélagsins af mistökum, gjaldþrotum og kærumálum hefur margfaldast og ungt fólk sér ekki lengur tilgang með að læra þessar greinar. Ástæða afnámsins var krafa Evrópusambandsins um aukið frjálst flæði vinnuafls á innri markaði sínum.  Hafa samtök iðnaðarmanna í Þýskalandi staðið fyrir mikilli herferð sem nefnist „JA ZUM MEISTER“  til stuðnings meistarakerfinu. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gaf út þá yfirlýsingu á dögunum að ekki yrði frekar hreyft við meistarakerfinu. Má líta á það sem viðurkenningu á fyrri mistökum.

Hinn 9. desember sl. kom svo út enn ein langlokan frá Viðskiptaráði en nú í beinni samvinnu við Samtök iðnaðarins. Nefnist hún „Af hverju er dýrt að byggja?“. Þar eru settar fram margar og misgáfulegar tillögur að lækkun byggingarkostnaðar. Sú galnasta er líklegast að „heimila húsbyggjanda að sinna jafnframt hlutverki byggingarstjóra í sérbýli“ og er þar með formlega lagt til að iðnmeistarar séu óþarfir.

Undarleg samsvörun virðist vera með skrifum  Viðskiptaráðs  (“Banvænn biti”) og orða formanns  SI og framkvæmdastjórum SI og SA. Tjaldinu hefur verið svipt frá og enginn þarf framar að velkjast í vafa um hvar þessir sjálfskipuðu vitringar standa. Aðförin að fagmennsku kemur úr þeirri átt sem iðnaðarmenn áttu síst von á, úr húsi atvinnulífsins í Borgartúni 35, og er runnin undan rifjum fulltrúa sérhagsmuna hjá samtökum sem þeir eiga aðild að. Samtök iðnaðarins eru gríðarlega efnislega auðug og  eiga í sjóðum sínum eitthvað á sjötta milljarð króna. Í staðinn fyrir að kynna iðnnám fyrir ungu fólki og taka  upp hanskann fyrir iðngreinarnar  á opinberum vettvangi er tíma og peningum eytt í aðför að meistarakerfinu og lögverndun iðngreina. Félög iðnmeistara geta vart  átt lengur samleið með samtökum sem hafa brugðist trausti þeirra með svona grófum vinnubrögðum þar sem farið er á bakvið félög iðnmeistara og félagsmenn þeirra. Afnám lögverndunar iðngreina yrði mikil afturför frá því sem þjóðin hefur búið við og hefur reynst vel síðustu áratugi. Mælirinn er fullur.