Sérhagsmunasamtökin

Axel Þorsteinsson bakari & konditor
Axel Þorsteinsson konditor sigraði Kahlúa kökukeppnina
02.05.2016
Bleikar makkarónur
Meistari makkarónunnar besti sætabrauðsbakarinn
14.06.2016
Sýna allt

Sérhagsmunasamtökin

Helgi Steinar Karlsson og Sigurður Már Guðjónsson

Helgi Steinar Karlsson og Sigurður Már Guðjónsson

Helgi Steinar Karlsson og Sigurður Már Guðjónsson

Helgi Steinar Karlsson og Sigurður Már Guðjónsson

Iðnþing hefur verið árviss viðburður um áratugaskeið og var haldið nú hinn 10. mars síðastliðinn. Þessi fyrrum vettvangur iðnaðarmanna til skoðanaskipta hefur breyst í skrautsýningu helstu stórfyrirtækja landsins þar sem engu er til sparað. Formaður og framkvæmdastjóri tala með þeim hætti að halda mætti að SI væru eitt stórt iðnfyrirtæki sem snúi hjólum atvinnulífsins á landsvísu.

Sannleikurinn er sá að hávaðasamir sérhagsmunahópar SA, SI og VÍ eru aðeins áróðursmaskínur þar sem tugir manna starfa við sömu störfin, greiningarvinnu og áróður. Ekki er gefinn kostur á almennum umræðum um framtíð iðngreinanna og hinn stóra vanda hvernig laða megi ungt fólk til iðnnáms, heldur raða stjórnmálamenn sér á fremsta bekk þar sem yfirborðsmennskan er að drukkna í hlöðnum veisluborðum. Nú í ár var kynntur til sögunar „Sáttmáli um vinnustaðanám“ þar sem nokkrir félagsmenn SI lýstu yfir vilja til að taka nemendur á námssamning.

Það leikrit mun engu breyta þar sem margir þeirra er nú þegar með nemendur á samningi. Þessi skrautsýning hefur reyndar ekki dregið að sér þá athygli sem SI vonaðist eftir og hafa samtökin því brugðið á það ráð að kaupa umfjöllun um hana í fjölmiðlum landsins. Samtök sem eiga samkvæmt ársreikningi 2015 5,5 milljarða króna í sjóðum og skiluðu 812 milljóna hagnaði fara reyndar létt með að kaupa sér alla þá athygli sem þau óska sér. Falinn vandi Í grein eftir Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formann SI, sem birtist í Fréttablaðinu hinn 12. apríl sl., hvetur hún ungt fólk til að velja sér iðnnám og skrifar: „Þú færð pottþétt starf “. og „Við leyfum okkur að fullyrða að fólk, sem stendur sig vel í iðnnámi, fái starf að loknu námi og það sem meira er, það mun fá góð og vellaunuð störf“.

Iðnnám er fjölbreytt og býr yfir gríðarlegum tækifærum en boðuð menntastefna SI er svört en ekki björt. Vissulega er það okkar von að iðnnám verði hafið til fyrri vegs og virðingar en SI hafa ekki sýnt í verki að þeirra vilji standi til þess. Þvert á móti blasir við ungu fólki sem leggur fyrir sig þrepaskipt starfsnám að áeggjan SI að útskrifast sem ný kynslóð láglauna iðjufólks með skert fagréttindi. Stefna sérhagsmunasamtakanna miðar illu heilli að þrepaskiptu starfsnámi í stað raunverulegs iðnáms sem á afar illa við í okkar litla landi en getur mögulega gengið hjá stórþjóðum. Iðnnám er í miklum vanda statt og lausnir þarf að ræða opið í samvinnu við þá sem við iðnirnar starfa. Vandinn er víðtækur: Þverrandi styrkur fagfélaga og aðför að löggildingu iðngreina.

Formaðurinn hefur kosið að sleppa nánari skýringum á menntastefnu SI og hvernig stefnt sé að því að framkvæma hana undir einsleitri stjórn skólanefndar SA og SI í Tækniskóla atvinnulífsins sem semur námskrár eftir sínu höfði og þörfum atvinnulífsins hverju sinni. Til stendur að skapa „mentora“ í stað reyndra iðnmeistara í mikilvægum iðngreinum. Hvað verður þá um meistarakerfið? Verður kannski til tvöfalt kerfi þar sem ekki allir eru jafnir fyrir lögum? Umhyggja formanns SI fyrir íslenskum iðnaði er reyndar einstök því sama dag og iðnþing var haldið hótaði fjölskyldufyrirtæki hennar, Kjörís í blaðaviðtali við Morgunblaðið, að flytja starfsemi sína úr landi. Röng stefna Búið er að koma nokkrum fyrrum öflugum fagfélögum iðnmeistara fyrir í leiguhúsnæði á jarðhæð húss atvinnulífsins í Borgartúni 35.

Þar stefna SI að sameiningu fagfélaganna fyrir luktum dyrum og án samráðs við iðnmeistarana sjálfa. Það sér hver maður hvert stefnir undir hæl og stjórnsýslu SA og SI þar sem augljóslega er grafið undan styrk þeirra. Staðfest er að starfsmenn Viðskiptaráðs Íslands vinna leynt og ljóst að afnámi lögverndunar iðngreina, sbr. greinargerðina „Banvænn biti“ sem birtist á vefsíðu VÍ 8. sept 2015 og það án athugasemda SI. Önnur birtingarmynd þessa er neikvætt álit VÍ til Alþingis á ósk leiðsögumanna um lögverndun starfsheitis, dags. 31.mars 2016. Það færi betur á því að sérhagsmunasamtökin litu sér nær og kæmu sér saman um að nýta betur hin miklu félagsgjöld SA,SI,VÍ til þarfari verka en nú er raunin. Formaður SI virðist ekki fylgjast með eða hlusta á fagfélögin sem eru leigjendur á jarðhæðinni í Borgartúni. Þeir leggjast eindregið gegn innleiðingu tilskipunar 2013/55/EB sem send var bréflega til menntamálaráðherra 8. apríl sl.

Í henni er stórfyrirtækjum gert auðveldara fyrir við að ráða erlent verkafólk. SI létu iðnmeistara ekki vita af reglugerðinni fyrr en frestur til athugasemda var nær liðinn. Af hverju vinna Samtök iðnaðarins á þennan hátt? Því er fljót svarað. Þau komast upp með það! Heildarfjöldi atkvæða innan samtakanna er ca. 237.000 atkvæði, þar af 162.000 hjá stórfyrirtækjunum og 75.000 hjá iðnaðarmönnum. Það sjá það allir að iðnmeistarar ráða engu innan SI og geta því ekki lengur átt samleið með samtökunum.

Lagabreytingar SI auðvelda brottrekstur Annar greinarhöfunda hefur um árabil setið í stjórn meistarafélags sem er innan raða SI. En var á aðalfundi félagsins 11. mars síðastliðinn kosinn úr stjórn. Þar hvatti formaðurinn félagsmenn til að losa sig við þá sem gagnrýndu samtök iðnaðarins opinberlega og kvörtuðu undan lögbrotum félagsmanna til yfirvalda. Hér er um grímulausa skoðanakúgun að ræða en þó í fullkomnum takti við vinnubrögð samtakanna og lénsherra þeirra. Á iðnþinginu var lögum SI breytt og er 8.gr afar áhugaverð: “ Stjórn SI er heimilt að víkja félagsaðila úr SI, ef sérstök og rökstudd ástæða þykir til, og sú ákvörðun er samþykkt af 2/3 hlutum stjórnarinnar.“ Það á að losa sig við alla þá sem gagnrýna samtökin opinberlega.

Óheilindi SI hafa komið í ljós sem komin eru í órafjarlægð frá sjálfstæða iðmeistaranum yfir í samansafn stórfyrirtækja með önnur markmið en faglega og samfélagslega ábyrgð. Fá samtök á Íslandi hafa barist af jafn mikilli hörku fyrir inngöngu í Evrópusambandið og SI. Það verður því að teljast merkilegt að öll þau varnaðarorð sem greinarhöfundar hafa áður bent á í fyrri greinum um stöðu iðnnáms í Evrópu séu látin eins og vindur um eyru þjóta.

Þau varnaðarorð eru ekki óskhyggja eða tilbúningur heldur fengin frá viðurkenndum stofnunum sem annast rannsóknir á þróun iðnaðar í Þýskalandi þar sem handverksiðnaður er á hæsta stigi í Evrópu.

Kannski sannast hér hið forkveðna: ,,Enginn borgarmúr er svo hár að asni klyfjaður gulli komist ekki yfir hann“?

Grein þessi var einnig birt í Morgunblaðinu í dag á bls. 26.

Höfundar:

Sigurður Már Guðjónsson
Bakara- og kökugerðarmeistari

Helgi Steinar Karlsson
Múrarameistari